Iceland at night

Almyrkvi á sólu

12. ágúst 2026

Í Reykjavík

Deildarmyrkvi hefst: Mið, 12. ágúst 2026, 16:47

Almyrkvi hefst: Mið, 12. ágúst 2026, 17:48:19

Almyrkvi í hámarki: Mið, 12. ágúst 2026, 17:48:48

Almyrkva lýkur: Mið, 12. ágúst 2026, 17:49:18

Deildarmyrkva lýkur: Mið, 12. ágúst 2026, 18:47

Lengd sólmyrkva: 2 klst

Lengd almyrkva: ~1 mínúta

Almyrkvi á sólu er ein stórfenglegasta sýning náttúrunnar. Almyrkvinn 12. ágúst 2026 gengur yfir Norðurskautið, Grænland, Ísland, Portúgal og Spán. Í norðurhluta Norður Ameríku, Skandinavíu, Evrópu og vestur Afríku sést deildarmyrkvi.

Almyrkvinn er lengstur 2m 18s í hafinu skammt vestan við Látrabjarg á Íslandi.

Á Íslandi gengur örmjó almyrkvaslóðin yfir vestasta hluta landsins. Alskuggi tunglsins nemur fyrst land við Straumsnesvita á Hornströndum kl. 17:43:28. Þar stendur almyrkvinn yfir í 1m 26s. Á Látrabjargi má njóta sýningarinnar ögn lengur, í 2m 13s.

Skuggi tunglsins þeysist yfir Jörðina á 3400 km hraða á klukkustund. Hann færist suður á bóginn yfir Snæfellsnes, Reykjavík og Reykjanesskaga. Alskugginn færist loks af Íslandi við Reykjanestá kl. 17:50:07. Þar stendur almyrkvinn yfir í 1m 47s.

Í heildina er almyrki á Íslandi frá 17:43:28 til 17:50:07, í 6m 48s. Eftir það þýtur alskugginn suður yfir Atlantshafið og nær Spáni næstum 35 mínútum síðar, kl. 18.25:44. Á Mallorca er almyrkvi við sólsetur.

Smelltu á kortið til að finna út hvernig sólmyrkinn sést frá þér

Hvað sést utan almyrkvaslóðar á Íslandi?

Nota þarf sólmyrkvagleraugu allan tímann utan almyrkvaslóðarinnar.

Allir Íslendingar austan almyrkvaslóðarinnar sjá umtalsverðan deildarmyrkva, frá 99,9% niður í 95%. Frá flestum stöðum landsins verður sólin næfurþunn sigð. Birtan breytist talsvert og landslagið tekur á sig ákaflega fallegan og framandi silfurlitaðan blæ, auk þess að skuggar verða skarpari en venjulega.

Til að fylgjast með deildarmyrkvanum á öruggan hátt þarf að nota sólmyrkvagleraugu og sólarsíur á sjónauka allan tímann, jafnvel við 99,9% deildarmyrkva. Slíkan búnað má finna í vefversluninni okkar sem verður opnuð innan tíðar.

Minnstur er deildarmyrkvinn frá Neskaupstað (95,19%). Á Höfn í Hornafirði sést 96% deildarmyrkvi og 97,9% á Akureyri. Í Kerlingarfjöllum, á hálendi Íslands, sést 98,8% deildarmyrkvi.

Aðeins tvö þéttbýlissvæði eru á jaðri almyrkvaslóðarinnar, Hvanneyri og Mosfellsdalur. Á Hvanneyri sést almyrkvi í 1-5 sekúndur eftir því hvar innan kjarnans athugandi er. Örfáum tugum metra austar er 99,99% deildarmyrkvi. Sama gildir um Mosfellsdal þar sem Gljúfrasteinn er til að mynda rétt utan við almyrkaslóðina.

Einstök og ógleymanleg upplifun

The path of totality sweeps near Iceland and over Spain on August 12, 2026. 
Michael Zeiler / GreatAmericanEclipse.com

Almyrkvi á sólu er sjaldséð sjón frá hverjum tilteknum stað á Jörðinni. Fyrir langflesta er almyrkvi algerlega einstök upplifun á ævinni. Þetta er fyrsti almyrkvinn sem sést frá Íslandi síðan 30. júní 1954 og jafnframt fyrsti almyrkvinn sem sést frá Reykjavík síðan 17. júní 1433.

Eftir 2026 liggur almyrkvaslóðin næst yfir Íslandi 26. júní árið 2196, þá yfir Snæfellsnes og Vestfirði. Frá Reykjavík sést almyrkvi ekki aftur fyrr en 26. maí 2245. Vertu því viss um vera á réttum stað.

Almyrkvinn stendur yfir í 1 klst 36m. Á þeim tíma ferðast 293 km breiður alskugginn 8260 kílómetra langan slóð á Jörðinni, frá Norðurheimskautinu yfir Grænland, Ísland, lítinn hluta af Portúgal, norðurhluta Spánar og endar við sólsetur á Mallorca. Sjá kort frá Michael Zeiler hjá GreatAmericanEclipse.com.

Almyrkvi á sólu er stórfenglegt náttúruundur, ótrúleg upplifun sem jafnvel breytir lífinu. Almyrkvi á sér stað fyrir ofan þig, í kringum þig og innra með þér, svo vitnað sé til orða sálfræðingsins Dr. Kate Russo.

Almyrkvi er tækifæri til að gera sem mest úr ótrúlega fallegum, himneskum atburði með fjölskyldu, vinum og nágrönnum. Skemmtu þér konunglega fyrir, á meðan og eftir.

Njóttu sýningarinnar.

Með von um heiðan himinn hjá öllum.

Veður

Clear skies in Iceland on August 12, 2023

Talandi um heiðan himinn. Ísland er vissulega þekkt fyrir að vera fremur skýjaður staður. Hins vegar er veðurútlit fyrri hluta ágústmánaðar gjarnan ákaflega gott.

Hafa ber í huga að ekki er nauðsynlegt að himinninn sé alveg heiðskír. Háskýjaslæða truflar ekki neitt en versta mögulega veður er þungbúið og rigning. Ef það versta gerist munum við samt sem áður upplifa nokkuð einstakt: Að myrkur skellur á í eina til tvær mínútur.

Fylgstu með verðurpsánni nokkrum dögum fyrir stóra daginn. Sjá má skýjahuluspá og gervitunglamyndir á vefsiðunni Iceland at Night og vef Veðurstofu Íslands.

Þegar nær dregur sólmyrkvanum munum við opna sérstaka síðu með ítarlegum veðurupplýsingum.

Hér sést gervitunglamynd af fínum aðstæðum á vesturhelmingi landsins 12. ágúst 2023.

Stjörnur og reikistjörnur

Planets visible during the August 12, 2026 total solar eclipse

Við almyrkva skellur ekki á myrkur, heldur rökkur eins og hálftíma eftir sólsetur. Fjórar reikistjörnur gætu birst: Venus í suðvestri, Júpíter og Merkúríus í vestri og hugsanlega Mars lágt í norðvestri.

Sumar björtustu stjörnurnar gætu líka sést. Við almyrkvann er sólin í Ljónsmerkinu. Regúlus, skærasta stjarna Ljónsins, gæti sést austan (vinstra megin) við sólina og Kastor og Pollux, björtustu stjörnur Tvíburanna, vestan sólar. Beint fyrir ofan okkur, í hvirfilpunkti, gætu stjörnur Karlsvagnsins birst okkur.

En hafði samt augun frekar á almyrkvanum. Hann stendur alltof stutt yfir.

Hvernig get ég fylgst með og tekið myndir?

Solar filters should always be placed in front of the aperture of camera lenses, binoculars and telescopes. Credit: Baader Planetarium

Til að sjá og taka myndir af deildarmyrkvanum er nauðsynlegt að nota örugg sólmyrkvagleraugu og öruggar sólarsíur. Um leið og almyrkvinn skellur á tekurðu sólmyrkvagleraugun af þér og horfir á sýninguna með berum augum. Það er eina leiðin til þess að berja dýrðina augum. Sjá nánar í greininni okkar um Öryggi augna.

Í vefversluninni okkar (verður opnuð innan tíðar) er hægt að kaupa sólmyrkvagleraugu og sólarsíur sem hafa verið prófaðar og fylgja ítrustu öryggiskröfum (ISO 12312-2 öryggisstaðlinum og eru CE-vottaðar). Við bjóðum upp á fjölmargar vörur til sólskoðunar, allt frá hágæða sólarsjónaukum niður í einföld og ódýr (en 100% örugg) papprísgleraugu.

Sólarsíur eru alltaf festar á fremri enda myndavélalinsa eða sjónauka, eins og sést á myndinni.

Með kaupum á sólmyrkvagleraugum frá okkur styður þú við ýmis fræðsluverkefni tengd sólmyrkvanum og þessa vefsíðu. Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn.

Hvers vegna verða sólmyrkvar?

Skýringarmynd sem sýnir deildarmyrkva og almyrkva á sólu.

Sólmyrkvar eiga sér stað fyrir merkilega tilviljun. Sólin er 400 sinnum lengra frá Jörðinni en tunglið en líka 400 sinnum stærri að þvermáli. Þar af leiðandi sýnast sólin og tunglið jafn stór á himninum eða 1/2 gráða. Þau passa fullkomlega saman – en aðeins ef uppröðunin er rétt.

Tunglið er um það bil einn mánuð að ferðast í kringum Jörðina. Þetta ferðalag tunglsins færir það nær sólinni við „nýtt tungl“ – þegar tunglið er milli Jarðar og sólar.

Sporbraut tunglsins hallar svo oftast fer skuggi tunglsins undir eða yfir Jörðina. En þegar uppröðunin er hárrétt og tunglið í réttri fjarlægð frá Jörðinni gengur það fyrir sólina og hylur hana alveg. Tunglið varpar þá keilulaga skugga á örmjóa slóð á Jörðinni. Ef þú ert á slóðinni, undir alskugga tunglsins á réttum stað á réttum tíma, verður þú vitni að ótrúlegustu sýningu náttúrunnar: Almyrkva á sólu.

Almyrkvaslóðin er venjulega í kringum 200 km breið. Utan hennar sérðu aðeins deildarmyrkva, þ.e. þegar sólin er að hluta til myrkvuð. Deildarmyrkvar eru fallegir en ekki nándar nærri jafn tilkomumiklir og almyrkvar. Það er ekkert til sem heitir 99,9% almyrkvi. Þetta 0,1% sem upp á vantar jafngildir muninum á degi og nóttu. Vertu því alveg viss um að þú sért á réttum stað.

Hversu sjaldgæfir eru almyrkvar á sólu?

Almyrkvi á sólu er sjaldséð sjón frá hverjum tilteknum stað á Jörðinni. Útreikningar belgíska reiknimeistarans Jean Meeus sýna að að meðaltali líða 375 ár milli almyrkva frá tilteknum stað. Sem dæmi líða 593 ár á milli almyrkva frá Reykjavík (1433-2026) og 1505 ár milli almyrkva frá Akureyri (1469-2974).

Frá því að Ísland var numið í kringum árið 870 hefur alskuggi tunglsins snert Ísland tólf sinnum. Frá 2026 til ársins 3000 upplifa Íslendingar aðeins sjö almyrkva í viðbót.

Stysti tíminn milli almyrkva er 9 ár, milli 26. júní 1424 og 17. júní 1433. Lengsta bil milli almyrkva er 264 ár, milli 9. júlí 1469 og 13. maí 1733.

Lengsti almyrkvi sem sést hefur frá Íslandi varð 30. mars 1131. Þá huldi tunglið sólina í 3m 40s á Vestfjörðum.

Stysti almyrkvinn varð 5. júlí 1312 en hann stóð aðeins yfir í 47 sekúndur þar sem nú er Kögurviti á Austurlandi.

Í framtíðinni verður lengsti almyrkvinn á Íslandi 7. september 2974 í 3m 49s á Breiðdalsvík.

+ 29 október 878

+ 25. febrúar 1077

+ 30. mars 1131

+ 5. júlí 1312

+ 16. júlí 1330

+ 26. júní 1424

+ 17. júní 1433

+ 9. júlí 1469

+ 13. maí 1733

+ 17. júlí 1833

+ 28. júlí 1851

+ 30. júní 1954

+ 12. ágúst 2026

+ 26. júni 2196

+ 26. maí 2245

+ 20. mars 2406

+ 26. maí 2636

+ 2. september 2817

+ 7. september 2974

Hve lengi standa almyrkvar yfir?

How the Moon's umbral shadow crosses Iceland: Credit: Michael Zeiler/GreatAmericanEclipse.com

Almyrkvar á sólu standa mjög mislengi yfir, allt frá örfáum sekúndum upp í um það bil sjö og hálfa mínútu. Lengd almyrkva veltur á fjarlægð tungls frá Jörðinni og hvar á Jörðinni myrkvinn er. Ef tunglið er í jarðnánd, næst Jörðu, getur almyrkvinn verið langur.

Sé tunglið í jarðfirrð, lengst frá Jörðinni, sést ekki almyrkvi heldur hringmyrkvi. Þá er tunglið of langt í burtu til þess að hylja sólina alveg. Hringmyrkvar eru ákaflega fallegir líka. Seinast sást hringmyrkvi frá Íslandi 31. maí 2003 en næst 11. júní 2048.

Lengdin veltur líka á því hversu nálægt miðju almyrkvaslóðarinnar athugandi er. Nálægt jaðrinum sést almyrkvi í aðeins örfáar sekúndur en nær miðlínunni sést myrkvi jafnan í fáeinar mínútur.

Hvar og hvenær er næsti almyrkvi?

Eftir 2026 fellur alskuggi tunglsins næst á Jörðina þann 2. ágúst 2027. Þá sést almyrkvi frá Gíbraltarsundi, norðurhluta Afríku í gegnum Egyptaland og Sádí Arabíu.

Þann 22. júlí 2028 verð ég í Ástralíu til að sjá sjöunda almyrkvann minn.