Síðdegis miðvikudaginn 12. ágúst 2026 getur þú séð eitt af stórkostlegustu fyrirbærum náttúrunnar frá Íslandi: Almyrkva á sólu.
Hér eru svör við nokkrum algengum spurningum.
Hér undir er tafla sem sýnir tímasetningar sólmyrkvans á vesturhluta Íslands, frá Vestfjörðum, Snæfellsnesi, Reykjavík og Reykjanesskaga.
www.solmyrkvagleraugu.is
Það er vissulega möguleiki en ákaflega ólíklegt.
Í fyrsta lagi verður himinninn ekki nægilega dimmur til þess að dauf norðurljós sjáist. Í öðru lagi er líklegasti tíminn til að sjá norðurljós í kringum kl. 23:00, nálægt segulmiðnætti.
Þegar myrkvinn á sér stað er þó líklegt að sólin verði nokkuð virk. Ef hún sendi hraðfleygan sólvind, kórónuskvettu, í átt að Jörðinni tveimur eða þremur dögum fyrir myrkvann, gæti segulstormur orðið. Ef segulstormur skellur á á réttum tíma og björt norðurljós kvikna, gætu þau orðið sýnileg. Þetta hefði reyndar verið raunin 24. mars 2024 þegar öflugur segulstormur varð síðdegis.
Miðbik ágúst er upphaf norðurljósatímabilsins á Íslandi. Skömmu eftir miðnætti er orðið nægilega dimmt til þess að þau sjáist. Hvetjum ferðafólk því til þess að dvelja lengur eftir myrkvann og eiga þá góða möguleika á að sjá norðurljósin.
Heimsæktu Icelandatnight.is fyrir norðurljósaupplýsingar og skýjahuluspá.
99% sólmyrkvi er fallegur deildarmyrkvi en ekkert í líkingu við óviðjafnanlega fegurð almyrkva. Munurinn er bókstaflega dagur og nótt. Það er ekkert til sem heitir 80% eða 90% almyrvki. Almyrkvi er aðeins þegar 100% sólar eru myrkvuð.
Hefurðu einhvern tímann verið á tónleikum með uppáhalds hljómsveitinni þinni? Munurinn á deildarmyrkva og almyrkva er eins og að vera á tónleikunum eða hlusta á tónlistina heima.
Myndin hér undir sýnir 99.97% deildarmyrkva frá rannsóknarstöðinni á Washington-fjalli í New Hampshire í Bandaríkjunum 8. april 2024.
Það veltur á því hversu þykk skýjahulan er. Til að sjá almyrkva á sólu þarf himinninn ekki að vera fullkominn.
Háský trufla nánast ekki neitt svo þú sérð allt saman.
Ef götótt mið- og lágský eru á himni gæti heppnin verið með þér og þú sérð almyrkvann í gegnum göt á skýjahulunni.
Sé hins vegar þungbúið og rigning missum við af mestöllu sjónarspilinu. Það verða mikil vonbrigði en við því er auðvitað ekkert að gera.
Ef alskýjað er upplifum við samt sem áður eitthvað dálítið einstakt. Það skellur á myrkur og dagur breytist í nótt í mínútu eða tvær. Síðan birtir á ný eins og ekkert hafi í skorist. Við gætum séð ákaflega fallega liti í skýjunum, hugsanlega með ryðrauðum blæ.
Dagur verður ekki að nóttu (nema alskýjað sé og þungbúið!) heldur rökkvar eins og 30 mínútum eftir sólsetur. Himinninn er bjartari en við fullt tungl.
Myndina hér undir tók vinur okkar Tunç Tezel en hún sýnir allan himinninn við almyrkva 2. júlí 2019 í Chile. Hún sýnir vel hversu dimmt verður við almyrkvann.
Það er erfitt að horfa á eitthvað annað en sólina og tunglið á meðan almyrkva stendur. Ef þú freistast til að líta kringum þig gætirðu séð fjórar reikistjörnur.
Venus skín skært í suðvestri (vinstra megin við sólina) og birtist skömmu fyrir almyrkvann. Þú gætir líka komið auga á Júpíter og Merkúríus í vestri og mögulega Mars mjög lágt í norðvestri.
Við almyrkvann er sólin í stjörnumerkinu Ljóninu. Nokkrar af björtustu stjörnunum gætu sést. Regúlus, bjartasta stjarna Ljónsins, gæti sést austan (vinstra megin) við sólin og Kastor og Pollux, björtustu stjörnur Tvíburanna, vestan sólar. Í hvirfilpunkti, beint fyrir ofan okkur, gætu stjörnur Karlsvagnsins sést.
Myndin sýnir útsýnið frá Reykjavík.
Þegar síðasti geisli sólar hverfur á bak við tunglð birtist hann sem bjartur demantur á svörtum hring á himninum. Þessi skæri ljósblossi hverfur um leið og almyrkvinn hefst og kórónan birtist. Demanturinn birtist aftur þegar almyrkvinn er búinn.
Ótrúlega fallegt!
Hvenær sést Demantshringurinn: Strax fyrir og eftir almyrkva. Sólmyrkvagleraugu af!
Perlur Bailys birtast þegar örmjó sólarsigðin hverfur á bak við fjöll og skín eftir dölum á jaðri tunglsins.
Perlur Bailys eru nefndar eftir enska stjörnufræðingnum Francis Baily. Þann 15. maí 1836 varð Baily vitni að hringmyrkva í Skotlandi og gerði þá nákvæmar lýsingar á ljósperlum sem birtust við upphaf hringmyrkvans.
Hvenær sjást perlur Bailys?: Tíu sekúndur fyrir og eftir almyrkva. Sólmyrkvagleraugu af!
Föstudaginn 20. mars 2015 varð verulegur deildarmyrkvi á Íslandi. Í Reykjavik huldi tunglið 97% sólar en 99% á Austurlandi.