Almyrkvinn 12. ágúst 2026 gengur yfir vestasta og þéttbýlasta svæði landsins, yfir Vestfirði, Snæfellsnes, Höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskaga. Þú getur smellt á kortið hér undir til að sjá hvenær myrkvinn hefst, nær hámarki og hvenær honum lýkur. Notaðu stækkunarglerið til að fletta upp heimilisfanginu þínu.
Alskuggi tunglsins nemur fyrst land á Íslandi á Vestfjörðum. Hann snertir landið fyrst við Straumnesvita á Hornströndum kl. 17:43:28. Þar stendur almyrkvinn yfir í 1m 26s.
Við Látrabjarg er almyrkvinn lengstur frá Íslandi, í 2m 13s. Búast má við talsverðum mannfjölda þar en gott er að hafa í huga að fjölmargir staðir á Vestfjörðum ættu líka að koma til greina. Á Ísafirði stendur almyrkvinn yfir í 1m 31s.
Ennfremur er mikilvægt að hafa hæð fjalla í huga. Þess vegna sýnir gagnvirka myrkvakortið okkar skuggavarp af fjöllum kl. 17:45 miðvikudaginn 12. ágúst 2026. Notaðu kortið til að finna bestu útsýnisstaðina.
Alskugginn nær Snæfellsnesi kl. 17:45:46 við Rif, Hellissand og Ólafsvík. Frá Hellissandi og Rifi stendur almyrkvinn yfir í 2m 7s og 2m 5s í Ólafsvík. Almyrkvinn sést frá öllum þéttbýlissvæðum nessins.
Frá Grundarfirði er hægt að sjá myrkvann með Kirkjufell í forgrunni. Þaðan stendur myrkvinn yfir í 1m 50s og líklegt að staðurinn verði vinsæll.
Í Stykkishólmi sést almyrkvi í 1m 23s. Þaðan er ákaflega fallegt útsýni yfir fjöllin á Snæfellsnesi.
Á sunnanverðu Snæfellsnesi eru margir frábærir staðir. Frá Arnarstapa, Hellnum og Búðum er útsýnið glæsilegt í átt að myrkvanum með Snæfellsjökul í forgrunni.
Alskugginn þýtur suður frá Snæfellsnesi yfir Borgarnes og Akranes. Frá Borgarnesi sést almyrkvi í 43 sekúndur en í 1m 2s frá Akranesi, aðeins 12 km vestar.
Í Mosfellsbæ stendur almyrkvinn yfir í 27 sekúndur og í Mosfellsdal aðeins örfáar sekúndur. Gljúfrasteinn stendur rétt fyrir utan almyrkvaslóðina.
Í fyrsta sinn síðan 17. júní 1433 liggur almyrkvaslóðin yfir Reykjavík. Í Reykjavík hefst almyrkvinn kl 17:48:12 þegar sólin er í 24,5 gráðu hæð á vesturhimni. Á Höfuðborgarsvæðinu öllu veltur lengd almyrkvans nokkuð á því hvar þú ert staddur/stödd/statt. Í miðborginni er sólin almyrkvuð í eina mínútu. Við Gróttu njóta gestir almyrkvans 6 sekúndum lengur.
Í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði er sólin almyrkvuð í kringum 1m - ögn lengur vestast í bæjarfélögunum, eins og við Skylagoon, úti á Bessastöðum og Hvaleyri.
Vertu bara viss um að engar háreistar byggingar byrgi þér sýn 12. ágúst 2026.
Viðbúið er að fjöldi fólks leggi leið sína út á Reykjanesskaga til að berja almyrkvann augum. Á Reykjanesskaganum er almyrkvinn einna lengstur í Suðurnesjabæ, frá Garði og Sandgerði, en líka í Höfnum og Grindavík, í kringum 1m 40s. Á Keflavíkurflugvelli stendur almyrkvinn yfir 1m 38s.
Gestir í Bláa Lóninu munu geta fylgst með almyrkvanum úr lóninu í 1m 36s.
Almyrkvinn endar loks við Reykjanestá þaðan sem hann stendur yfir í 1m 47s.
Allir á Íslandi upplifa umtalsverðan deildarmyrkva. Svo mikinn raunar að frá flestum stöðum verður sólin næfurþunn sigð svo landslagið tekur á sig ákaflega fallegan og framandi silfurlitaðan blæ og skuggar verða skarpari en venjulega.
Til að fylgjast með deildarmyrkvanum á öruggan hátt þarf að nota sólmyrkvagleraugu og sólarsíur á sjónauka og myndavélar allan tímann. Þau fást í vefversluninni okkar.
Minnstur er deildarmyrkvinn frá Neskaupstað (95,19%) á Austurlandi. Á Suðurlandi sést 96% deildarmyrkvi frá Höfn í Hornafirði en á Norðurlandi, á Akureyri, hylur tunglið 97,91% sólar.
Á hálendi Íslands, í Kerlingarfjöllum, myrkvast 98,8% sólar.
Aðeins tvö þéttbýlissvæði eru á jaðri almyrkvaslóðarinnar, Hvanneyri og Mosfellsdalur. Á Hvanneyri sést almyrkvi í 1 til 5 sekúndur en það veltur á því hvar athugandi er. Aðeins nokkrum tugum metra austar í bænum sést 99,99% deildarmyrkvi.
Erfitt verður að bóka hótelgistingu innan almyrkvaslóðarinnar og líklegt að AirBnB íbúðir verði allar uppbókaðar líka. Gott er að finna gistingu rétt austan við almyrkvaslóðina og aka síðan inn í slóðina þegar veðurspá liggur nokkuð örugglega fyrir.
Hafðu líka í huga að búast má við mjög mikilli umferð 12. ágúst, sér í lagi seinni partinn. Gefðu þér því góðan tíma til að komast inn í almyrkvaslóðina.