Iceland at night

Hvaðan sést almyrkvi?

Hvar verður þú 12. ágúst 2026?

Almyrkvinn 12. ágúst 2026 gengur yfir vestasta og þéttbýlasta svæði landsins, yfir Vestfirði, Snæfellsnes, Höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskaga. Þú getur smellt á kortið hér undir til að sjá hvenær myrkvinn hefst, nær hámarki og hvenær honum lýkur. Notaðu stækkunarglerið til að fletta upp heimilisfanginu þínu.

Vestfirðir

Observation deck at Bolafjall, Westfjords. Credit: Haukur Sigurðsson

Alskuggi tunglsins nemur fyrst land á Íslandi á Vestfjörðum. Hann snertir landið fyrst við Straumnesvita á Hornströndum kl. 17:43:28. Þar stendur almyrkvinn yfir í 1m 26s.

Við Látrabjarg er almyrkvinn lengstur frá Íslandi, í 2m 13s. Búast má við talsverðum mannfjölda þar en gott er að hafa í huga að fjölmargir staðir á Vestfjörðum ættu líka að koma til greina. Á Ísafirði stendur almyrkvinn yfir í 1m 31s.

Ennfremur er mikilvægt að hafa hæð fjalla í huga. Við erum að vinna að því að kortleggja skuggavarp á Vestfjörðum síðdegis 12. ágúst 2026.

Snæfellsnes

Snæfellsjökull glacier. Credit: West.is

Alskugginn nær Snæfellsnesi kl. 17:45:46 við Rif, Hellissand og Ólafsvík. Frá Hellissandi og Rifi stendur almyrkvinn yfir í 2m 7s og 2m 5s í Ólafsvík. Almyrkvinn sést frá öllum þéttbýlissvæðum nessins.

Frá Grundarfirði er hægt að sjá myrkvann með Kirkjufell í forgrunni. Þaðan stendur myrkvinn yfir í 1m 50s og líklegt að staðurinn verði vinsæll. Hafa ber í hug að fjallið Mýrarhyrna við stæðið við Kirkjufellsfoss mun byrgja sýn þaðan.

Í Stykkishólmi sést almyrkvi í 1m 23s. Þaðan er ákaflega fallegt útsýni yfir fjöllin á Snæfellsnesi.

Á sunnanverðu Snæfellsnesi eru margir frábærir staðir. Frá Arnarstapa, Hellnum og Búðum er útsýnið glæsilegt í átt að myrkvanum með Snæfellsjökul í forgrunni.

Höfuðborgarsvæðið

Reykjavík. Credit: VisitIceland.com

Alskugginn þýtur suður frá Snæfellsnesi yfir Borgarnes og Akranes. Frá Borgarnesi sést almyrkvi í 43 sekúndur en í 1m 2s frá Akranesi, aðeins 12 km vestar.

Í Mosfellsbæ stendur almyrkvinn yfir í 27 sekúndur og í Mosfellsdal aðeins örfáar sekúndur. Gljúfrasteinn stendur rétt fyrir utan almyrkvaslóðina.

Í fyrsta sinn síðan 17. júní 1433 liggur almyrkvaslóðin yfir Reykjavík. Í Reykjavík hefst almyrkvinn kl 17:48:12 þegar sólin er í 24,5 gráðu hæð á vesturhimni. Á Höfuðborgarsvæðinu öllu veltur lengd almyrkvans nokkuð á því hvar þú ert staddur/stödd/statt. Í miðborginni er sólin almyrkvuð í eina mínútu. Við Gróttu njóta gestir almyrkvans 6 sekúndum lengur. 

Í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði er sólin almyrkvuð í kringum 1m - ögn lengur vestast í bæjarfélögunum, eins og við Skylagoon, úti á Bessastöðum og Hvaleyri.  

Vertu bara viss um að engar háreistar byggingar byrgi þér sýn 12. ágúst 2026. 

Reykjanesskagi

Reykjanestá. Mynd: Wikimedia Commons

Viðbúið er að fjöldi fólks leggi leið sína út á Reykjanesskaga til að berja almyrkvann augum. Á Reykjanesskaganum er almyrkvinn einna lengstur í Suðurnesjabæ, frá Garði og Sandgerði, en líka í Höfnum og Grindavík, í kringum 1m 40s. Á Keflavíkurflugvelli stendur almyrkvinn yfir 1m 38s.

Gestir í Bláa Lóninu munu geta fylgst með almyrkvanum úr lóninu í 1m 36s.

Almyrkvinn endar loks við Reykjanestá þaðan sem hann stendur yfir í 1m 47s.

Visit Reykjanes

Aðrir hlutar Íslands utan almyrkaslóðar

How the Moon's umbral shadow crosses Iceland: Credit: Michael Zeiler/GreatAmericanEclipse.com

Allir á Íslandi upplifa umtalsverðan deildarmyrkva. Svo mikinn raunar að frá flestum stöðum verður sólin næfurþunn sigð svo landslagið tekur á sig ákaflega fallegan og framandi silfurlitaðan blæ og skuggar verða skarpari en venjulega.

Til að fylgjast með deildarmyrkvanum á öruggan hátt þarf að nota sólmyrkvagleraugu og sólarsíur á sjónauka og myndavélar allan tímann. Þau fást í vefversluninni okkar.

Minnstur er deildarmyrkvinn frá Neskaupstað (95,19%) á Austurlandi. Á Suðurlandi sést 96% deildarmyrkvi frá Höfn í Hornafirði en á Norðurlandi, á Akureyri, hylur tunglið 97,91% sólar.

Á hálendi Íslands, í Kerlingarfjöllum, myrkvast 98,8% sólar.

Aðeins tvö þéttbýlissvæði eru á jaðri almyrkvaslóðarinnar, Hvanneyri og Mosfellsdalur. Á Hvanneyri sést almyrkvi í 1 til 5 sekúndur en það veltur á því hvar athugandi er. Aðeins nokkrum tugum metra austar í bænum sést 99,99% deildarmyrkvi.

Erfitt verður að bóka hótelgistingu innan almyrkvaslóðarinnar og líklegt að AirBnB íbúðir verði allar uppbókaðar líka. Gott er að finna gistingu rétt austan við almyrkvaslóðina og aka síðan inn í slóðina þegar veðurspá liggur nokkuð örugglega fyrir.

Hafðu líka í huga að búast má við mjög mikilli umferð 12. ágúst, sér í lagi seinni partinn. Gefðu þér því góðan tíma til að komast inn í almyrkvaslóðina.