Iceland at night

Öryggi augna

Hvernig á að fylgjast með sólmyrkva á öruggan hátt?

How to watch a solar eclipse safely? Credit: Sævar Helgi Bragason

Sólmyrkvar eru alls ekki hættulegir áhorfs, af því gefnu að þú fylgir einföldum varúðarráðstöfunum:

  • Deildarmyrkvi = Sólmyrkvagleraugu og sólarsíur á
  • Almyrkvi = Horfa með berum augum og sólarsíur af

Svo einfalt er það.

Engin hætta er á augnskaða þegar horft er á almyrkvann með berum augum. Raunar er það eina leiðin til þess að upplifa almyrkvann og sjá kórónu sólar í öllu sínu glæsilega veldi. Mundu því að taka af þér sólmyrkvagleraugun innan við 15 sekúndum áður en almyrkvinn skellur á.

Flest fólk er nógu klárt til þess að stara ekki á sólina með berum augum. Sem betur fer er ákaflega sjaldgæft að fólk verði fyrir augnskaða þegar það fylgist með sólmyrkvum.

Nota þarf sólmyrkvagleraugu þegar fylgst er með deildarmyrkvanum, fyrir og eftir almyrkva. Venjuleg sólgleraugu eru EKKI örugg. Horfðu aldrei á sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðar.

  • Horfðu aldrei á sólina í gegnum handsjónauka eða sjónauka án þess að nota sólarsíu - nema hún sé fullkomlega almyrkvuð.
  • Horfðu aldrei með sólmyrkvagleraugum í gegnum handsjónauka eða sjónauka án sólarsía

Sé þessum reglum ekki hlýtt hlýst varanlegur augnskaði af.

Einfaldasta og ódýrasta leiðin til að fylgjast með sólmyrkvum er að nota örugg sólmyrkvagleraugu sem uppfylla ISO 12312-2 öryggisstaðalinn og eru CE-vottuð. Nota þarf öruggar sólarsíur á sjónauka, handsjónauka og myndavélalinsur.

Hvar fást sólmyrkvagleraugu og sólarsíur? Í vefversluninni okkar, solmyrkvagleraugu.is. Við þökkum stuðninginn, hann heldur þessum vef gangandi og styður við ýmis sólmyrkvaverkefni.

Sólarljósið og augað

Partial solar eclipse from Chile in 2019. Credit: Sævar Helgi Bragason

Sólin er alls ekki hættulegri við sólmyrkva en hvern annan sólríkan dag. Við sólmyrkva gætirðu hins vegar freistast til þess að gjóa augunum að henni. Myndin hér sýnir hversu ótrúlega björt sólin er þrátt fyrir að vera meira en 90% myrkvuð og almyrkvi hefjist aðeins tíu mínútum síðar.

Sólin okkar gefur frá sér alls konar ljós en mestmegnis sýnilegt sem er ástæða þess að hún sýnist svo ótrúlega björt. Jafnvel þótt aðeins 1% af skífu sólar sjáist er hún samt tíu þúsund sinnum skærari en fullt tungl.

Í augum okkar eru ljósnemar sem kallast stafir og keilur. Ef þú horfir á sólin án hlífðarbúnaðar í meira en örfáar sekúndur hefjast efnahvörf í augnfrumunum sem skaða þær. Í verstu tilvikum skemmast þær varanlega.

Þetta á sérstaklega við ef þú horfir síendurtekið á sólina óvarin(n). Þá geta hitaskemmdir orðið í auganu sem bókstaflega eldar vefinn innan frá. Þú finnur ekki fyrir því gerast því sjónhimnan hefur enga sársaukanema.

Þetta mundi gerast á sekúndubroti ef þú værir svo óheppin(n) að horfa á sólina í gegnum óvarinn sjónauka eða handsjónauka. Hefurðu einhvern tímann prófað að nota stækkunargler til að kveikja eld með sólarljósinu? Ekki gera sömu tilraun á augunum þínum.

Svo horfðu aldrei á sólina í gegnum sjónauka, handsjónauka eða myndavélalinsu án öruggra sólarsía. Sólarsíur eru ALLTAF settar á fremri enda sjónauka eða linsunnar.

Örugg sólmyrkvagleraugu og sólskyggnur

Baader Planetarium Astro Solar safety solar filters and eclipse goggles

Örugg sólmyrkvagleraugu og sólskyggnur eru þægilegasta, ódýrasta, einfaldasta og öruggasta leiðin til að fylgjast beint með sólmyrkvum. Þessi einföldu tól samanstanda af sólarsíum sem festar eru í pappírsumgjörð og eru notuð eins og gleraugu.

Sólmyrkvagleraugu deyfa sólarljósið um tíu þúsund falt og sía burt skaðlega útfjólubláa geislun og innrauða. Það gerir þau fullkomlega örugg til að fylgjast með sólmyrkvum.

Sólmyrkvagleraugu þarf aðeins að nota á meðan deildarmyrkvanum stendur, fyrir og eftir almyrkvann.

Fjarlægðu gleraugun innan við 15 sekúndum fyrir almyrkva til að dást að fegurðinni sem þá hefst.

Þegar almyrkvanum lýkur og fyrstu sólargeislarnir birtast á ný verður sólin óþægilega björt áhorfs með berum augum. Þá er tími til að setja gleraugun aftur upp og gjóa augunum annað slagið að deildarmyrkvnum sem eftir er.

Hvar fást örugg sólmyrkvagleraugu? Í vefversluninni okkar, solmyrkvagleraugu.is.

Við seljum aðeins örugg sólmyrkvagleraugu sem hafa verið prófuð ítarlega og uppfylla ISO 12312-2 öryggisstaðalinn og eru CE-vottaðar. Gleraugun okkar eru framleidd í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Við þökkum stuðninginn, hann heldur þessum vef og ýmsum sólmyrkvatengdum verkefnum gangandi.

Sólarsíur fyrir sjónauka

Solar filters should always be placed in front of the aperture of camera lenses, binoculars and telescopes. Credit: Baader Planetarium

VARÚÐ: Horfðu aldrei á deildarmyrkvaða eða ómyrkvaða sól í gegnum myndavélalinsu, handsjónauka, sjónauka eða önnur sjóntæki, jafnvel með sólmyrkvagleraugu. Sólargeislarnir brenna sig í gegnum sólmyrkvagleraugun samstundis og valda augnskaða.

Það er ákaflega gaman að fylgjast með framgangi sólmyrkva í gegnum lítinn sjónauka. Öruggasta leiðin til þess er að nota sólarsíu.

Sólarsíur eru ALLTAF festar á fremri enda myndavélalinsu, handsjónauka og sjónauka. Gættu þess líka að fjarlægja leitarsjónaukann eða að linsuhlífarnar séu fastar á allan tímann.

Sólarsíurnar okkar eru framleiddar hjá vinum okkar í Baader Planetarium í Þýskalandi og American Paper Optics í Bandaríkjunum. Þær hafa frábær sjóngæði og mikla skerpu.

Þegar þú pantar sólarsíu fyrir sjónaukann þinn þarftu að mæla ytra þvermál ljósopsins eða kaupa sólarsíuörk sem þú festir sjálf(ur). AstroSolar síurnar okkar frá Baader eru líka í boði fyrir handsjónauka og útsýnissjónauka.

Herschel prisma er annar möguleiki. Herschel prismað sem við bjóðum upp á frá Baader Planetarium er eins og skáspegill fyrir linsusjónauka. Það er eina tólið til sólskoðunar sem krefst ekki sólarsíu á ljósopi sjónaukans. Prismað gefur skörpustu mögulegu myndina af sólinni og er mjög öruggt í notkun.

Skoðaðu sólarsíur og Herschel prisma í vefversluninni okkar.

Sólarsjónaukar

Observing a solar eclipse through H-alpha solar telescope. Credit: Sævar Helgi Bragason

Sérhæfðir sólarsjónaukar eru frábær viðbót í græjusafn stjörnuáhugafólks.

Virkiliega skemmtilegt er að sjá og skoða sólina með vetnis-alfa (H-alfa) sólarsjónaukum. Þú sérð sólstróka og sólbendla (sólgos) í rauðleitu lithvolfi sólarinnar. Með öðrum orðum er fátt betra en að fylgjast með deildarmyrkvanum í gegnum H-alfa sólarsjónauka. Og að sjálfsögðu er hægt að nota hann hvaða sólríka dag sem er til að skoða stjörnuna okkar.

Sólarsjónaukar gagnast þó aðeins við deildarmyrkva. Við almyrkvann sést ekkert í gegnum þá.

Skoðaðu sólarsjónauka í vefversluninni okkar. Við mælum eindregið með þeim.

Notaðu sólarvörn

Ef veðrið leikur við okkur á stóra daginn muntu líklega verja meira en tveimur klukkustundum úti í sólinni. Húðin getur brunnið í sólinni á aðeins nokkrum mínútum svo gættu þess að nota góða, vistvæna sólarvörn reglulega, helst SPF30 eða meira.