Þegar ferðalög til Íslands til að sjá almyrkvann á sólu 2026 ber á góma, berst talið fljótt að hugsanlegu skýjafari
Ef þér líkar ekki veðrið, bíddu þá bara í fimm mínútur. Þetta er gjarnan haft á orði um síbreytilegt veðrið á Íslandi. Þann 12. ágúst 2026 hafa sólmyrkvaunnendur þó aðeins 2 mínútur og 13,7 sekúndur til upp á að hlaupa.
Þegar ferðalög til Íslands til að sjá almyrkvann á sólu 2026 ber á góma berst talið því yfirleitt fljótt að mögulegu skýjafari.
Sólmyrkvaunnendur munu flestir fara annað hvort til Íslands eða Spánar en bæði lönd hafa sína kosti og galla. „Á margan hátt er Ísland heppilegri staður því almyrkinn verður hærra á himni,“ sagði Graham Jones, stjarneðlisfræðingur og vísindamiðlari hjá timeanddate.com. Á Íslandi verður almyrkvinn þegar sól er um 25 gráður á lofti á vesturhimni, sem er nógu hátt til þess að myrkinn sjáist í gegnum göt í hugsanlegri skýjahulu. Á Spáni verður myrkvinn mjög lágt á lofti, sem veldur ekki aðeins vandræðum um að ná óheftu útsýni, heldur líka vegna þess að þegar sól er lágt á himni þarf að horfa í gegnum mun þykkara andrúmsloft og því mögulega fleiri skýjalög. „Þetta er spurning um myrkva hærra á himni en meiri líkum á skýjum á Íslandi eða mun lægra á himni en minni líkur á skýjum, að meðaltali, á Spáni,“ sagði Jones. „Þetta er ákveðin klemma.“
Á Íslandi er veðrið oft ófyrirsjáanlegt. Eyjan er lítil, umvafin hafi og milli tveggja stórra landmassa. „Ísland er klettur í Norður-Atlantshafi sem er mjög lítill miðað við mörg stærri veðrakerfi,“ sagði Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur sem hefur unnið hjá Veðurstofu Íslands. „Við höfum Evrópu öðrumegin en Grænland hinumegin sem hafa tilhneiginu til að stýra veðrakerfunum.“ Þess vegna er erfitt fyrir líkön að spá mjög nákvæmlega fyrir um veðrið.
Ísland er á 62 breiddargráðu norður og á meginskilum við heimskautsbaug, þar sem kalt heimskautaloft mætir hlýju og röku suðrænu lofti. Afleiðingin er síbreytilegt veður. Hafið bætir ekki úr skák en það flytur varma til Íslands og gerir veðrið flóknara. „Ísland ætti að vera kaldara en það er – það er vegna hafsins,“ sagði Elín. „En hafið færir okkur líka mikinn raka sem veðrakerfin sækja á leiðinni til okkar.“
Sem betur fer fyrir Íslandi er almyrkvinn að sumri til. „Júlí er hlýjasti mánuðurinn en við erum heppin að ágúst er venjulega þurrasti mánuðurinn,“ sagði Elín. „Á vesturhluta landsins, þar sem almyrkvinn ver, er úrkoma venjulega minni en í öðrum mánuðum ársins.“
Aftur á móti getur sumarveðrið orðið læst. „Veðrið hefur tilhneigingu til að færast hægar um andrúmsloftið á sumrin,“ sagði Elín. Veðrið getur líka verið mjög ólíkt frá ári til árs. „Hér er breytileiki milli ára í veðrinu og við höfum tilhneigingu til að vera föst milli nokkurra kerfa,“ sagði hún.
Svo þótt ágúst sé venjulega þurrasti mánuðurinn verður veðrið líklega ófyrirsjáanlegt fram að myrkva. Ekki búast við nothæfri veðurspá þar til tveimur vikum fyrir.
Bestu útsýnisstaðirnir fara eftir vindátt sem getur haft áhrif á skýjahuluna og þokuloft. „Ef austanátt verður ríkjandi, verður mestur hluti svæðisins líklega í lagi,“ sagði Elín. Ef suðaustanátt verður ríkjandi, gæti orðið bjart á norðvesturhluta Vestfjarða og hálendari hlutarnir ákjósanlegri til að forðast sjávarþoku. „Ég færi líklega i fjallgöngu vegna þess að við ströndina er hætta á hafgolu og jafnvel þoku.“
„Á Íslandi ættu sólmyrkvaunnendur að vera á ferðinni,“ sagði Jay Anderson, kanadískur veðurfræðingur sem sérhæfir sig í veður- og loftslagsupplýsingum um sólmyrkva á Eclipsophile. „Í Reykjavik gæti verið fínt veður en ef þú vilt virkilega sjá myrkvann ættirðu að vera tilbúin(n) til að ferðast meðfram vesturströndinni eða út á Snæfellsnes.”
Gætu skýin horfið rétt fyrir myrkvann og lokast skömmu eftir? Þótt ótrúlegt megi virðast getur það gerst við sólmyrkvan – en ekki reiða þig á það.
Bólstraský eru drifin áfram af landslagshitun sólar. Þau geta horfið ef landið kólnar – eins og gerist þegar tunglið gengur fyrir sól við sólmyrkva. Á Íslandi aftur á móti gætu þessi kólnunaráhrif verið flókin. „Sum ský munu hverfa við myrkvann en önnur ekki – þarna eru áhrif af breytilegu landslagi, vindi og hitastigi,“ sagði Anderson. Myrkvakólnun getur haft ýmis áhrif, hugsanlega leyst upp sum bólstraský en mögulega aukið þokumyndun við tiltekna aðstæður. „Gættu þín á fjallshlíðum sem fá mikið af bólstraskýjum,“ sagði Anderson. „Þau koma gjarnan af hafi með hafgolu fremur en sólarhitun.“
Þótt að á Íslandi sé krefjandi veður eru þar líka gerðar góðar og nákvæmar veðurspár, þar á meðal skýjahuluspár. „Veðurstofa Íslands birtir daglega skýjahuluspár ekki síst því svo margt fólk flykkist þangað til að sjá norðurljós,“ sagði Anderson. Þessi kort koma að góðum notum fyrir myrkvaunnendur sem verða á ferðinni. [Þessa skýjahuluspá má líka sjá ásamt veðurtunglamynd á icelandatnight.is]
Einnig er líklegt að myrkvinn kalli á sérstaka myrkvaverðurspár. „Veðurstofa Íslands mun líklega gefa út sérstaka myrkvaveðurspá nálægt almyrkvanum,“ sagði Elín.
Hvernig sem virðar er ráðleggingin þessi: Vertu á ferðinni og notaðu skýjahuluspána til að finna heiðan himinn fyrir myrkvann. Sólmyrkvinn á sér stað síðdegis og almyrkvinn í kringum klukkan 17:45 svo nægur tími er til að finna göt í skýjahulunni.