Almyrkvi 2. júlí 2019 í Chile. Mynd: Petr Horalek/ESO

Hversu dimmt verður við almyrkva á sólu?

Dagur breytist ekki í nótt við almyrkva heldur rökkur – nema ef alskýjað er

Hversu dimmt verður í sólmyrkvanum miðvikudaginn 12. ágúst 2026? Svarið veltur á veðri og hvar þú ert þegar tunglið hylur sólina síðdegis þennan dag.

Margir halda að við almyrkva skelli á algert myrkur. Svo er ekki, nema alskýjað sé. Gerum þó ráð fyrir að veður verði hagstætt og skoðum hvað við upplifum.

Litlar breytingar fyrst, svo...

Tunglið er um það bil klukkustund að færast fyrir sólina. Á þeim tíma dregur svo hægt og rólega úr birtunni að lengst af tökum við ekki eftir neinum breytingum.

Augu okkar vega líka upp á móti birtuminnkuninni. Á meðan deildarmyrkvanum stendur stækka sjáöldur augna okkar um 1 til 2 millímetra svo augað safnar fjórfalt meira ljósi.

Þegar deildarmyrkvinn er orðinn meiri en 90% verðum við fyrst vör við að birta og litir í kringum okkur breytast. Þá er eins og fjarlæg en björt stjarna lýsi upp Jörðina, sem reyndar er raunin.

Einstök silfruð birta

Þessi sérkennilega birtu- og litabreyting verður vegna þess að ljós berst ekki lengur frá sólinni allri heldur þunnri sigð. Þá berst sólarljósið frá hærri og kaldari lögum ljóshvolfsins (sýnilega yfirborði sólar). Bylgjutoppur þessa ljóss er örlítið hliðraður við bylgjutopp sólarljóss á venjulegum degi.

Á þeim tímapunkti virkar birtan í kringum okkur silfruð eða ögn fjólublárri en venjulega. Þessi silfraða málmkennda birta er glæsileg, eins og fegursta rökkur ævinnar. Allir Íslendingar upplifa hana, innan og utan almyrkvaslóðar.

Á Ísafirði gerist þetta í kringum kl. 17:35. Í Snæfellsbæ í kringum kl. 17:39 og í Reykjavík nálægt kl. 17:41. Á Akureyri tekur fólk eftir þessari silfurbirtu um kl. 17:40 og nálægt 17:42 á Egilsstöðum. Um þetta leyti gæti Venus farið að birtast á himni talsvert vinstra megin (austan) við sólina.

Erfitt er að fanga þessa fallegu og furðulegu birtu á mynd. Myndirnar hér undir, sem höfundur tók rétt fyrir almyrkvann í Chile 2. júlí árið 2019, sýnir ágætlega muninn og hvernig litir breytast og skuggar skerpast.

Birtu og litabreytingar í sólmyrkvanum í Chile 2016. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Svipuð birta og á öðrum reikistjörnum

Áhugavert er að bera dvínandi birtuna saman við birtuaðstæður á hádegi á reikistjörnum sólkerfisins.

Um kl. 17:37 verður álíka bjart í Reykjavík og á Mars. Klukkan 17:44 verður birtan orðin svipuð og á Júpíter og fer hratt þverrandi. Við almyrkvann kl. 17.48 verður álíka bjart á höfuðborgarsvæðinu og á hádegi á Neptúnusi, líkt og myndin hér undir sýnir.

Á Egilsstöðum verður álíka bjart og á hádegi á Úranusi þegar deildarmyrkvinn er í hámarki þar kl. 17:48.

Við hámark deildarmyrkva á Akureyri kl. 17:46 verður ögn dimmara en á hádegi á Úranusi en þó ekki alveg jafn dimmt og á Neptúnusi.

Birtubreytingar í sólmyrkvanum 2026 miðað við aðrar reikistjörnur sólkerfisins. Mynd: Andreas Dill & Sævar Helgi Bragason

Hraðar breytingar stuttu fyrir almyrkva

Við 99% deildarmyrkva hefur birta sólar dvínað þúsundfalt miðað við hefðbundinn sólardag. Þá er samt álíka bjart og á þungbúnum sumardegi, sem kemur mörgum á óvart.

Þegar innan við mínúta er í almyrkva verða breytingarnar miklu örari. Augun ná ekki að venjast birtunni þegar almyrkvinn er að skella á. Þá er birtan skyndilega orðin 100 þúsund sinnum minni en á hefðbundnum sólardegi.

Það hljómar mikið en samt breytist dagur ekki í nótt. Sólkórónan er álíka skær og fullt tungl svo bjarminn frá henni og dagsbirta sem berst inn í almyrkvaslóðina utan frá lýsir rökkrið upp.

Mælingar sýna að við almyrkva er álíka bjart og um 30-45 mínútum eftir sólsetur (siglingarökkur). Raunveruleg birta himinsins við almyrkva sést vel á myndinni hér undir sem tekin var í Chile 2019.

Sólkórónan og birta himins við almyrkva. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Jafnvel við 99,95% deildarmyrkva, eins og til dæmis í Þorlákshöfn þar sem innan við þúsundasti hluti af sólinni sést, er 100 sinnum bjartara en innan almyrkvans. Þar sést því alls ekki það sama með berum augum og í almyrkvaslóðinni.

Munurinn er himinn og haf. Svo ef þú hefur tök á skaltu tvímælalaust fara inn í almyrkvaslóðina.  

Skýjaður almyrkvi í Indónesíu í mars 2016. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Veður skiptir höfuðmáli

Hve dimmt verður fer eftir veðri. Öfugt við það sem ætla mætti er heiðskír almyrkvi dimmari en hálfskýjaður eða léttskýjaður. Skýin dreifa nefnilega birtunni sem berst inn í slóðina og frá kórónunni. Ef heiðskírt er verður því alls ekki niðamyrkur heldur djúpt rökkur.

Hve dimmt verður veltur líka á hve djúpt inni í alskugganum þú ert. Vestast á Íslandi dimmir mest en minnst við jaðarinn. Þá er myrkvinn dimmastur þegar hann er í hámarki en bjartari í sitt hvorn endann. 

Dimmastur verður almyrkvinn ef alskýjað er. Þá skellur á algert myrkur í 1-2 mínútur.

Mikilvægt er að hafa í huga að skýjaður almyrkvi er margfalt meiri upplifun en heiðskír deildarmyrkvi. Þetta sést vel í myndskeiðinu hér undir sem tekið var 8. apríl 2024 í Rochester í New York.

Sveitarfélög verða að gæta þess að ljósastaura kvikni ekki sjálfkrafa á meðan almyrkvinn stendur yfir. Það skemmir einstaka upplifun.

Í hnotskurn

  • Hve dimmt verður fer eftir veðri
  • Ef heiðskírt verður rökkur eða svipað dimmt og 30-40 mínútum eftir sólsetur
  • Ef alskýjað verður algert myrkur í 1-2 mínútur
  • Augun aðlagast birtubreytingum hratt á meðan deildarmyrkvinn stendur yfir
  • Í heiðskírum almyrkva er álíka bjart og á Neptúnusi
  • Gæta verður þess að ekki kvikni sjálfkrafa á ljósastaurum

Viltu styðja við framtakið?

Með kaupum á sólmyrkvagleraugum og öðrum varningi frá solmyrkvagleraugu.is styður þú við bakið á fræðsluverkefnum sem tengjast sólmyrkvanum.

Sólmyrkvagleraugu.is
Höfundur
Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason hefur upplifað fjóra almyrkva á sólu til þessa. Hann er vísindamiðlari, rithöfundur, dagskrárgerðarmaður og eigandi og ritstjóri solmyrkvi2026.is og icelandatnight.is